8 atriði til að laga á vefnum strax
Vefurinn er mikilvægasta birtingarmynd vörumerkja í dag og þar sem stund sannleikans verður sífellt oftar í samskiptum við viðskiptavini - en hvað er langt síðan þú skoðaðir eigin vef með gagnrýnum augum? Við skoðum hér nokkur atriði sem skaða notendaupplifun. Eru þau í lagi hjá þér?
Vefir eldast hratt í dag. Það er löngu liðin tíð að hægt sé gefa út nýjan vef og láta hann svo liggja óhreyfðan þangað til hann er endurnýjaður aftur - eftir kannski 4-5 ár. Væntingar notenda aukast stöðugt og breytast hratt.
En vefir eiga það líka til að safna drasli. Það þarf að taka reglulega til, skipuleggja upp á nýtt og hreinsa út.
Hér ræðum við um 8 atriði sem trufla verulega notendaupplifun á vefnum þínum og best er kippa í liðinn hið snarasta:
#1: Sprettigluggar
Sprettigluggar (e. pop-up windows) geta stundum hentað til að grípa notendur á netfangalista eða til að vekja athygli á tilboðum. Miklu oftar eru þeir þó truflandi fyrir notendur, enda yfirleitt ágengir og tímasetning óheppileg. Best er að sleppa þeim - nema sterk rök séu fyrir öðru.
Gluggar sem spretta fram um leið og komið er inn á síðu, yfirskyggja meginefni síðunnar eða er erfitt að loka, virka mjög neikvætt á notendur.
Hver vill láta veifa framan í sig bæklingum og tilboðsmiðum þegar gengið er inn í verslun?
Gerðu þetta:
- Kannaðu aðrar leiðir sem eru ekki eins ágengar en gera sama gagn, til dæmis hreyfirenninga eða borða - mikilvægt er þó að gera A/B prófanir til að bera saman árangur.
- Stilltu sprettiglugga þannig að þeir birtist eftir ákveðinn tíma, til dæmis þegar notandi er kominn neðst á síðu eða sýnir að hann ætlar að yfirgefa vefinn.
- Tryggðu í öllu falli að auðvelt sé að loka öllum sprettigluggum og þeir þvælist ekki fyrir ásetningi notandans.
#2: Úrelt efni
Tímaháð efni sem er orðið gamalt og úrelt getur virkað neikvætt á vefgesti. Þetta á sérstaklega við um fréttir og tilkynningar ýmiss konar. Ef yngsta frétt er margra mánaða gömul er kannski ástæða til að endurskoða fréttabirtingar almennt.
Hið sama á við um bloggefni. Ef blogg eru birt mjög óreglulega er skynsamlegt að fjarlægja dagsetningar á þeim - besta bloggefnið er hvort sem er sígrænt (e. ever-green) og á alltaf erindi, þótt vissulega þurfi að uppfæra og yfirfara efni og tengla reglulega.
Gerðu þetta:
- Settu niður áætlun um efnisúttekt, til dæmis 1-2 sinnum á ári, eftir eðli starfseminnar.
- Taktu út efni sem á ekki við lengur, uppfærðu síður með nýju efni, nýjum tenglum og myndefni.
#3: Sjálfvirkt spilun efnis
Sjálfvirk spilun á vídeó- eða hljóðefni getur virkað stuðandi á notendur og getur skaðað notendaupplifun og hækkað hopphlutfall (e. bounce-rate). Svoleiðis fítusar geta líka hægt á vefjum, ekki síst í farsímum.
Gerðu þetta:
- Taktu út sjálfvirka spilun, settu upp virkni eða viðbætur þar sem notandi ákveður sjálfur hvenær eða hvort hann spilar efnið.
- Vertu viss um að vídeó- eða hljóðefnið styðji við fyrirætlun notandans en sé ekki bara til skrauts og þvælist fyrir honum.
- Ef sjálfvirk spilun er nauðsynleg af einhverri ástæðu sjáðu til þess að hljóðlaus stilling sé fyrsta val (e. default).
#4: Flókin valmynd
Of flókin valmynd með mörgum hlekkjum og undirvalmyndum getur ruglað notendur í rýminu, þannig að þeir finna ekki það sem þeir leita að. Þetta kemur klárlega niður á notendaupplifun og getur hækkað hopphlutfall (e. bounce-rate).
Flókin veftré og valmyndir þvælast líka fyrir leitarvélum þegar þær þræða og skrásetja vefinn - sem er ekki gott.
Gerðu þetta:
- Kannaðu leiðir til að einfalda leiðarkerfið þannig að meginsíður séu dregnar fram með lýsandi heitum eða merkingum.
- Reyndu að hafa hlekki í aðalvalmynd sem fæsta, 5-7 eða færri er ágætt viðmið.
- Notaðu sprettivalmyndir (e. drop-down menus) sparlega og tryggðu að valmyndir séu aðgengilegar bæði á stærri skjám og í síma.
#5: Myndir úr myndabönkum
Ljósmyndir sem augljóslega eru fengnar úr erlendum myndabönkum og hafa óljósa tengingu við rekstur þinn skaða ímynd og traust. Netnotendur eru í dag yfirleitt næmir á efni sem virkar ekki ekta, hvort sem það er texti eða myndefni.
Aðkeyptar myndir - sérstaklega af fólki - geta virkað sem ódýr redding. Myndir teknar á síma sem sýna þinn raunveruleika eru alltaf betri en hágæðamyndir af fólki eða umhverfi sem er framandi og tilgerðarlegt.
Gerðu þetta:
- Fjárfestu í nýjum myndum sem endurspegla starfsemi þína og menningu. Raunverulegar og vandaðar myndir af starfsmönnum, vörum og starfsumhverfi færir annars óspennandi vef á allt annað stig.
- Ef þú verður að notast við myndabanka, veldu myndir sem hægt er að tengja einhvern veginn við vörumerki þitt, starfsemi, staðfærslu og liti - en forðastu uppstilltar myndir af fólki.
#6: Óljósar fyrirsagnir
Fyrirsagnir eiga að leiðbeina notendum hratt og örugglega að þeim upplýsingum sem þeir leita að. Lýsandi og skýrar fyrirsagnir auðvelda skönnun í gegnum vefefni og bæta auk þess árangur í leitarvélum þar sem þær rýma betur við leitarstrengi.
Þetta á enn frekar við um titilfyrirsögn á forsíðu - hún á að útskýra strax virðisloforð fyrirtækisins og fullvissa notandann um hvert hann er kominn.
Gerðu þetta:
- Vertu viss um að titilfyrirsögn á forsíðu - eða áberandi undirfyrirsögn - lýsi vel virðisloforði fyrirtækins
- Farðu vel yfir allar fyrirsagnir - eru þær lýsandi fyrir viðkomandi kafla? Auðvelda þær notanda að skanna hratt yfir efni síðunnar?
#7: Langar málsgreinar
Lykilatriði er að vefefnið sé læsilegt og auðvelt að skanna yfir. Netnotendur eru í allt öðrum stellingum heldur en til dæmis lesendur bóka - þótt þær séu á rafrænu formi. Þeir eru að leita að gagnlegum upplýsingum og vilja finna þær eins fljótt og mögulegt er.
Málsgreinar eiga að vera stuttar, hámark þrjár línur. Auk þess eiga setningar að vera eins stuttar og mögulegt er. Oft er gott að feitletra lykilorð í hverri málsgrein til að auðvelda skönnun - þótt sumum hönnuðum finnist það ósmekklegt.
Gerðu þetta:
- Styttu málsgreinar eins og mögulegt er, reyndu að komast að kjarnanum í sem fæstum orðum.
- Styttu setningar sömuleiðis, taktu út óþarfa atviksorð og málskrúð. Notaðu málfar sem skilst hratt og auðveldlega.
- Punktar sem þessir er mjög gagnlegir til að auðvelda skönnun.
#8: PDF skjöl
Fátt er dapurlegra en að þurfa að opna eða hlaða niður PDF skjölum af vefjum til að nálgast ítarlegri upplýsingar til dæmis verðlista, vörulýsingar eða leiðbeiningar. Þessi leið er farin þegar vef- og ritstjórar eiga erfitt með að bæta við nýju efni á annan hátt.
PDF skjöl trufla notendaupplifun og gera ekkert fyrir leitarvélabestun. Þau eru líka vonlaus fyrir um helming notenda sem eru í síma.
Undantekning frá þessu er þegar boðið er vandað efni, til dæmis hvítbækur (e. white papers) gegn því að gefa upp netfang.
Gerðu þetta:
- Reyndu eftir mætti að koma nýjum upplýsingum fyrir í veftexta, fáðu aðstoð fagmanneskju ef nauðsynlegt er.
- Ef PDF skjöl eru nauðsynleg, passaðu upp á mörkun, útlit og læsileika. Fylgdu þeim eftir á niðurhalssíðu með lykilpunktum og fyrirsögnum þannig að leitarvélar finni efnið.
- Kannski er kominn tími á endurhönnun vefsins - jafnvel nýtt, nútímalegt vefumsjónarkerfi?
Samantekt
Það getur stórbætt notendaupplifun að fjarlægja úrelt eða ágengt efni og viðbætur. Mikilvægt er að yfirfara og uppfæra vefefni - fyrirsagnir, meginmál og myndefni - til að hámarka notendaupplifun. Væntingar og kröfur notenda aukast stöðugt. Leggðu áherslu á að bjóða einfalda og þægilega notendaupplifun þar sem hægt er auðvelt er að finna upplýsingar sem leitað er að.
Lestu áfram um vefefni og notendaupplifun:
Elmar Gunnarsson
Viðskipti og ráðgjöf
Viltu kíkja í spjall?
Orð eru til alls fyrst. Kíktu til okkar í heimsókn og segðu okkur þína sögu. Við tökum vel á móti þér, frítt og skuldbindingalaust.