AI spunavélar riðla SEO leiknum: Generative Engine Optimization

Spunavélar eins og ChatGPT og Google Gemini eru óðum að taka yfir hlutverk sem Google leitarvélin hafði áður einokun á: Að gefa netnotendum bestu ráð og svör um allt milli himins og jarðar. Um leið er leitarvélabestun sem markaðsstrategía í uppnámi - eða hvað? Við skoðum hér helstu leiðir fyrir vörumerki að ná sýnileika í spunavélum. 

Hans Júlíus Þórðarson

Hans Júlíus Þórðarson

Markaðsmál og efnisþjónusta

julli@vettvangur.is

Gartner spáir því að vefumferð vegna lífrænnar leitar á netinu muni minnka um 50% 2028 frá því sem er í dag (2024) vegna leitar í AI lausnum. Ef það reynist rétt er eins gott fyrir markaðsfólk að opna augun og fylgjast vel með. 

Stór hluti alls efnis á netinu er samið fyrir þá sem leita að svörum og úrlausnum við vanda sínum og vangaveltum. Allt rekstrarmódel og tilvistargrundvöllur tæknirisans Google byggir á þessu vistkerfi. Alþjóðlegt markaðsstarf í gegnum netið gerir það einnig.

Síðustu misseri hafa sprottið fram spunagreindarlausnir eins og ChatGPTMicrosoft Copilot og Google Gemini sem sinna sama hlutverki - að gefa ráð og svör um allt milli himins og jarðar. Þessar lausnir bjóða oft töluvert betri notendaupplifun en Google leitarvélin - a.m.k. ennþá.

Google AI overview

Hinar nýju spunalausnir eru að riðla SEO leiknum hratt. Vörumerki sem setja út vefefni sem raðast efst í leitarniðurstöðum eru ekki endilega að birtast í svörum ChatGPT/Copilot/Gemini þar sem spurt er að sömu spurningum. Hvað veldur?

Google gerir sér grein fyrir ógninni við leitarvél sína og er að gera tilraunir um þessar mundir með AI Overviews, þar sem svör úr Google Gemini birtast á undan venjulegum leitarniðurstöðum.

Ef Gemini metur leitarstrenginn svo að að spunasvar hjálpi notanda best birtist slíkt svar efst í niðurstöðum (þessi viðbót er ekki í boði á Íslandi þegar þetta er ritað, í júlí 2024).

Google AI Overview

Í Bandaríkjunum og víðar um heim er Google að prófa „AI Overview“, þar sem Gemini spunavélin gefur svar sem birtist fyrir ofan venjulegar leitarniðurstöður. 

Generative Engine Optimization (GEO)

Tilkoma AI leitar hefur sett SEO leikinn í uppnám, sem fyrr segir. En fræðimenn og sérfræðingar í stafrænni markaðssetningu eru þegar byrjaði að greina hvernig spunavélarnar sækja heimildir sínar - og hvernig megi auka líkur á því að tiltekin þjónusta eða vörumerki birtist í svörum þeirra. 

Þessi strategía hefur fengið heitið Generative Engine Optimization, GEO (eða spunavélabestun á íslensku?), sem snýr þá að því að aðlaga og sníða vefefni þannig að það hámarki sýnileika í spunagreindarlausnum eins og ChatGPT, MS Copilot og Google Gemini

Ný rannsókn mælir bestu leiðir fyrir GEO

2023 voru birtar niðurstöður rannsóknar í Princeton háskóla  („GEO: Generative Engine Optimization”) sem snéri að því að mæla hvaða aðgerðir skiluðu mestum árangri til að bæta sýnileika vörumerkja í spunavélum eins og ChatGPT. Í þessari rannsókn kemur í fyrsta skipti fram hugtakið „Generative Engine Optimization“.

Þetta er fyrsta rannsókn af þessu tagi, en reikna má með að virkni spunalausna vs. leitarvéla verði rannsökuð í þaula framvegis enda mikið í húfi.

Alls voru prófaðar níu aðferðir eða leiðir til að auka sýnileika:

  1. Staðfesta (e. authoritative)
  2. Notkun talnagagna (e. statistics addition)
  3. Hleðsla leitarorða (e. keyword stuffing)
  4. Vísun í heimildir (e. cite resources)
  5. Notkun tilvitnana (e. quotation addition)
  6. Auðskiljanlegur texti (e. easy-to-understand)
  7. Læsileiki texta (e. fluency optimization)
  8. Sérstæð orð (e. unique words)
  9. Tæknileg hugtök  (e. technical terms)

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þessar:

  • Tilvitnanir (5), vísun í heimildir (4) og notkun talnagagna (2) bættu GEO árangur um allt að 40%.

Læsileiki texta (7) og auðskiljanlegur texti (6) jók sýnileika töluvert, eða um 15-30%

Birtast þín vörumerki í leit að þjónustu á þínum markaði?

Margir eru farnir að nota spunavélar eins og ChatGPT sem leitarvélar til að fá svör hratt og á aðgengilegan hátt. Þetta dæmi um leit að afþreyingu í Reykjavík sýnir glögglega um hvað málið snýst og hvað er í húfi.

Hvað þýðir þetta í praxis?

Í áðurnefndri rannsókn segir: „Þessar aðferðir, að flétta við efnið viðeigandi talnagögnum og trúverðugum tilvitnunum, og vísa í áreiðanlegar heimildir, útheimta lágmarks vinnu og fyrirhöfn en skila verulega bættum árangri í spunasvörum (e. generative responses) og styrkja um leið trúverðugleika og gæði efnisins.“

Skoðum þessar ráðleggingar, lið fyrir lið:

Vísað í heimildir

Samkvæmt rannsókninni er áhrifaríkast að hlekkja í heimildir beint í texta eða málsgrein (eins og hér er gert). Ef viðkomandi heimild er ekki tiltæk á netinu heldur til dæmis úr bók er best að vísa í hana neðst í efni eða síðu, eins og í heimildaritgerðum, ef hönnun leyfir.

Tilvitnanir

Beinar tilvitnanir auka trúverðugleika efnis. Tilvitnanir þurfa að koma fram í textanum sjálfum, ekki sem mynd sem skeytt er inn í efnið. Þær þurfa líka að tengjast beint umfjöllunarefninu og bæta einhverju gagnlegu við það. Mikilvægt er að hlekkja einnig í heimild.

Talnaefni

Mállíkön treysta betur efni sem er stutt með tölulegum gögnum, til dæmis fjárhæðum og hlutföllum, eins og hér úr frétt af Mbl.is:

„Næsta dæmið varðar lækk­un skyldu­líf­eyr­is: „Síðustu ár hafa greiðslur í líf­eyr­is­sjóði hækkað og eru nú að lág­marki 15,5% af laun­um. Lækk­un skyldu­bund­ins líf­eyr­is­sparnaðar um 2 pró­sentu­stig myndi hækka út­borguð laun um 14.500 kr. á mánuði.“

Google vs. AI leit

Andy Crestodina útskýrir með skýru dæmi um hvað málið snýst.

Læsilegur og auðskiljanlegur texti

Spunavélar gera efni hærra undir höfði sem er auðvelt að lesa og skilja, bæði fyrir notendur og þær sjálfar. Þarna skiptir máli að textinn sé á góðu og einföldu máli, einnig að tækniorð og sjaldgæfar skammstafanir séu útskýrðar.

Í skóla var mörgum kennt að málsgreinar ættu að vera að minnsta kosti þrjár setningar. Þetta á ekki við um veftexta - þrjár setningar eru hámark frekar en lágmark.

Lykilatriði er að textinn sé auðskannanlegur, með stuttum setningum, stuttum málsgreinum og texti brotinn upp með lýsandi fyrirsögnum og myndefni:

  • Hafðu setningar og málsgreinar stuttar
  • Notaðu feitletrun og skáletrun til að auðvelda skönnun yfir texta
  • Notaðu punkta (eins og þessa) við upptalningu
  • Notaðu lýsandi fyrirsagnir
  • Notaðu einföld og auðskilin orð og orðalag

Auðlesið efni

Til að auka líkur á því að komast í niðurstöður spunavéla er mikilvægt að textaefni sem mjög auðlesið og skannanlegt. Það er til dæmis gert með stuttum málsgreinum, punktum, feitletrunum og myndefni.

Ýmis önnur atriði voru nefnd sem einnig skipta máli fyrir árangur, en hafa þó minni áhrif:

  • Umsagnir / meðmæli - mikilvægt að þær séu raunverulegar, ekki uppspuni
  • Með og á móti listar (e. pros & cons) virka vel
  • Samantektir um lengri umfjöllun, til dæmis efst og neðst í efni
  • Uppfært efni - staðfesta þarf að dagsetningar, hlekkir og fleira séu í lagi

Search Engine Journal kafaði enn dýpra í þessar niðurstöður, sem má kynna sér nánar hér.

Eins og sést tengjast þessar leiðir töluvert EEAT viðmiðum Google (Expertise, Experience, Authoritativeness,Trustworthiness) um bestu leiðir til að ná árangri í leitarvélum

Þær stuðla að því að gera efnið traustvekjandi og gefa til kynna þekkingu og reynslu af viðkomandi efni.

Hvað verður um SEO?

Enginn hefur svar við því, hlutirnir þróast hratt þessa dagana. Google hefur mikla hagsmuni af því að fólk keppist um árangur í leitarvél sinni með uppfærðu og vönduðu efni. Á sama tíma mun fólk sækja meira í spunavélar til að finna svör við sínum spurningum, sem það notaði áður netið til.

SEO leikreglurnar eru að tvímælaust að breytast en svo lengi sem netnotendur fá áreiðanlegri og dýpri upplýsingar í gegnum vefinn - e.t.v. með aðstoð spunavéla - mun stærsti hluti þeirra áfram sækja þangað um fyrirsjáanlega framtíð.

Þeir sem byggja sölu- og markaðsstarf sitt á árangri í leitarvélum verða þó að sníða efni sitt að þörfum spunavéla líka og fylgjast vel með hvað virkar þar.

Tvennt er hægt að gera:

  1. Hafa bæði þarfir leitarvéla og spunavéla í huga þegar vefefni er samið og gefið út.
  2. Leggja meiri áherslu á efni sem spunavélar geta ekki auðveldlega samið, til dæmis 
    • vandað mynd-  og vídeóefni 
    • umsagnir og reynslusögur viðskiptavina
    • viðtöl við sérfræðinga
    • gagnvirkt efni

Samantekt

Leitarhegðun netnotenda er að breytast. Sífellt fleiri nýta spunavélar til að fá svör við spurningum sínum. Mikilvægt er að huga sérstaklega að sýnileika í lausnum eins og ChatGPT, Google Gemini og MS Copilot. 

Ný rannsókn sýnir að áhersla á viðeigandi tilvitnanir, vísanir í traustar heimildir sem og notkun talnaefnis auki sýnileika vörumerkja í svörum helstu mállíkana. Miklu máli skiptir líka að fara vandlega eftir E-E-A-T ráðleggingum Google um framsetningu efnis, sem hjálpar einnig með almenna leitarvélabestun. 

Mállíkön og spunalausnir eru í hraðri þróun og því gætu bestu leiðir og viðmið breyst mikið á næstu mánuðum og misserum.

Það borgar sig að fylgjast vel með!

Elmar Gunnarsson

Viðskipti og ráðgjöf

Viltu kíkja í spjall?

Orð eru til alls fyrst. Kíktu til okkar í heimsókn og segðu okkur þína sögu. Við tökum vel á móti þér, frítt og skuldbindingalaust.

Sláðu á þráðinn

415 0018

Eða skelltu á mig pósti

Fyrirtaks fólk í fyrirtaks fyrirtæki

Vettvangurinn er skipaður einvala liði fólks og furðufugla, sem er gaman og ánægjulegt að vinna með.

  • Framúrskarandi fyrirtæki 2022-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2021-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2023
  • Velgjörðafyrirtækja SOS Barnaþorpa
  • Fyrirtækja ársins 2020

Viðskiptavinur