Árið 2022 á Vettvangi
Það er vel við hæfi og góður siður að fara yfir sviðið þegar nýtt ár er að hefjast. 2022 var viðburðaríkt sem aldrei fyrr. Vettvangur hélt áfram að vaxa og breiða úr sér, bæði í fjölda verkefna og starfsmanna - við höfum einfaldlega aldrei fyrr verið Vettvangur fyrir meira stuð.
Við förum hér yfir stærstu stiklur ársins.
Aldrei fleiri og fjölbreyttari verkefni
Árið byrjaði með sprengju, en glæsilegir vefir Rauða Krossins og HS Orku litu dagsins ljós strax í janúar. Krafturinn hélt svo bara áfram. Á næstu mánuðum spruttu fram ekki síðri lausnir fyrir Öryggismiðstöðina, Dropa og Þjóðgarðinn á Þingvöllum.
Hugverkastofan er nútímaleg stofnun á mikilli stafrænni siglingu sem nýr og glæsilegur vefur ber glöggt vitni um. Þróunin heldur áfram en vefurinn hefur þegar skilað miklu hagræði - reynslusaga þeirra er hér.
Epli fékk líka nýjan vef þar sem allt viðmót var tekið í gegn. Vörubirting, kaupferli og afhendingarmöguleikar voru endurhannaðir sem og notendastýring. Þetta er virkilega girnilegt Epli.
Í haust fengu Íslandshótel ærlega upplyftingu þar sem lögð var áhersla framúrskarandi framsetningu og einfalda leit að gistimöguleikum. Við gerðum líka léttleikandi og ferskan vef fyrir Netgíró, sem við erum sérlega ánægð með.
Og þá er ekki allt talið. Við gerðum meðal annars vefi fyrir Starfsmenntasjóð, sérvef fyrir Heilsueflandi - „Heilsueflandi vinnustaður“ og nýjan vef fyrir Isavia ANS.
Súkkulaðirúsínan í pylsuendanum þetta árið var óneitanlega Nói Síríus, sem fékk glæsilegan vef í tæka tíð fyrir hátíðirnar.
Uppfærslur og stöðug þróun
Alvöru veflausnir eru í stöðugri þróun. Stafræn tækni býður upp á sífellt meiri möguleika og notendur gera stöðugt meiri kröfur. Domino’s, Innnes og Heilsuvera eru dæmi um háþróaðar lausnir sem eru í stanslausri endurskoðun og þróun.
Domino’s er líklega tæknivæddasta vefverslun landsins. Þar heldur þróunin stöðugt áfram og árið í ár var engin undantekning, en meðal nýjunga voru upplýsingar um ofnæmisvalda og sérvalmynd fyrir vegan-pizzur.
Árinu lauk með skemmtilegu verkefni í anda „Spotify Wrapped“, þar sem viðskiptavinir Domino’s gátu skoðað tölur um viðskipti sín árinu á með skemmtilegum gagnasögum.
Innnes tók líka stórt stökk þar sem innri og ytri vefir voru sameinaðir og viðmót uppfært á mörgum stöðum. Heilsuvera, sem fékk verðlaun Umbraco fyrir besta vef á heilbrigðisssviði 2022, hélt einnig þróun sinni áfram með nýju Heilsuprófi og sérvef um Hollara val.
Rafræn auðkenning í LiveChat
Sérfræðingar Vettvangs þróuðu á árinu nýja viðbót fyrir LiveChat spjallforritið, sem gerir notendum kleift að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum í lifandi netspjalli.
Lausnin fór í gegnum ítarlega úttekt hjá LiveChat og er þegar komin í notkun hjá BHM, Heilsuveru og LSH.
Ársskýrslur fyrir nýja tíma
Algengt er orðið að stórfyrirtæki sem eru á markaði gefi út ársskýrslur sínar í vönduðum veflausnum. Ársskýrslur Haga og Össurar fyrir 2021 og samfélagsskýrsla Veritas eru góð dæmi um hvernig er hægt að setja slíkar skýrslur fram.
Til að birta lykiltölur í skýrslum Haga og Veritas í gagnvirkum gröfum og línuritum notuðum við Infogram, sem er mjög hentug lausn fyrir slíkt efni.
Hönnunarsprettir aldrei vinsælli
Sífell meiri ásókn er í hönnunarspretti hjá Vettvangi. Fjörugur sprettur fyrir Þróunar- og nýsköpunarsvið Reykjavíkurborgar þar sem dregnar voru fram hugmyndir fyrir nýtt stafrænt aðgangskort að þjónustu borgarinnar skilaði miklum upplýsingum og sameiginlegum skilningi.
Hið sama má segja um kraftmiklar vinnustofur með Borgarbyggð, Netgíró, Lyfju og Atlantsolíu sem allar skiluðu mörgum hugmyndum og stefnu fram á við.
Klapp á bakið
Okkur finnst best af öllu að viðskiptavinir okkar nái árangri í gegnum samstarf við okkur en það er líka gaman að fá viðurkenningar og klapp á bakið - og auðvitað fer þetta langoftast saman.
Vettvangur fékk fimm tilnefningar til Íslensku vefverðlaunanna fyrir verkefni síðasta árs en þær voru eftirfarandi:
- Inkasso - besti fyrirtækjavefur ársins, meðalstór fyrirtæki
- Vettvangur - sami flokkur (já - við vorum tilnefnd fyrir nýja vefinn okkar!)
- Rauði Krossinn - samfélagsvefur ársins
- Domino’s - söluvefur ársins
- Lyfju appið - app ársins
Vefur Domino's var valinn söluvefur ársins sem kom okkur ekki mikið á óvart, enda einhver þróaðasti og tæknilegasti vefur á Íslandi.
Við stefnum enn hærra á nýju ári!
Þau gleðilegu tíðindi urðu á Codegarden, árlegri ráðstefnu Umbraco nú í sumar, að Heilsuvera.is var útnefndur besti vefur ársins á sviði heilbrigðisþjónustu. Það var sannarlega mikill heiður, bæði fyrir okkur og aðstandendur vefsins, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landlæknis.
Umsögn dómnefndar Umbraco:
''What an amazing project - certainly a turning point in health services in Iceland in the shape of a central online healthcare record. This entry clearly explained the aim of the website, the functionality as well as, very importantly, results and uptake. The design is clean and supports the purpose of the site, and looks easy to navigate. The versatile and extensive use of taxonomy creates a dynamic and intuitive way to browse a large amount of content. Great work!''
En reksturinn gekk líka vel. Við vorum útnefnd Framúrskarandi fyrirtæki Creditinfo og Fyrirmyndarfyrirtæki VR - sem er í raun staðfesting á almennri gleði hér á Vettvangi.
Lífið á Vettvangi
Vettvangur er skemmtilegt samfélag ólíkra einstaklinga. Breytingar urðu í hópnum á liðnu ári og ýmislegt var gert til að krydda tilveruna og líta upp af skjáunum.
Vettvangsliðar fóru meðal annars í árshátíðarferð til Berlínar síðastliðið vor, sem heppnaðist frábærlega. Hópurinn gerði líka gott mót í Mýrakoti við Mosfell á haustdögum, þar sem grillmeistarar Vettvangs létu ljós sitt skína.
Við fengum góða heimsókn frá Fjölbraut í Garðabæ, þar sem nemendur í „Hönnun í atvinnulífinu“ kíktu í heimsókn og fræddust um hönnun stafrænna lausna á Vettvangi.
Jólahlaðborð Vettvangs var á sínum stað og var að þessu sinni haldið á „Systur og Makar“ í Síðumúla, þar sem tekið var á því mat, drykk - og kareóke.
Nýir starfsmenn
Við fengum frábæra viðbót í hópinn á árinu þegar Jana Olšanská, Jón Kári Eldon, Egill Halldórsson og Brynjar Þorsteinsson bættust í hópinn.
Velgjörðarfyrirtæki SOS Barnaþorpanna
Vettvangur er eitt Velgjörðafyrirtækja SOS Barnaþorpa. Við styrkjum starfsemi samtakanna um 500.00 kr. á ári sem veitt er áfram til verðugra verkefna.
Í desember fengum við góða heimsókn frá framkvæmdastjóra samtakanna, Ragnari Schram, sem veitti styrknum formlega viðtöku og sagði okkur frá brýnustu verkefnum SOS Barnaþorpanna um þessar mundir.
Viltu koma á Vettvang á nýju ári?
Við erum alltaf að leita að skemmtilegu fólki og fyrirtækjum til að vinna með - ertu með verkefni fyrir okkur eða ertu að hugsa þér til hreyfings í starfi?
Hafðu samband, segðu okkur þína sögu!
Elmar Gunnarsson
Viðskipti og ráðgjöf
Viltu kíkja í spjall?
Orð eru til alls fyrst. Kíktu til okkar í heimsókn og segðu okkur þína sögu. Við tökum vel á móti þér, frítt og skuldbindingalaust.