Hægur vefur = töpuð viðskipti: 8 leiðir til að auka hraðann

Vefir eru stafræn andlit fyrirtækja og mikilvægasta framlenging af vörumerki þeirra. Ef notendaupplifun vefja er ekki fyrsta flokks getur það haft slæmar afleiðingar fyrir bæði rekstrarafkomu og ímynd.  Hleðsluhraði vefsíðna er einn mikilvægasti liður í notendaupplifun og getur hreinlega skilið á milli feigs og ófeigs í harðri samkeppni á netinu.

Hans Júlíus Þórðarson

Hans Júlíus Þórðarson

Markaðsmál og efnisþjónusta

julli@vettvangur.is

Vefir eru stafræn andlit fyrirtækja og mikilvægasta framlenging af vörumerki þeirra. Ef notendaupplifun vefja er ekki fyrsta flokks getur það haft slæmar afleiðingar fyrir bæði rekstrarafkomu og ímynd. 

Hleðsluhraði vefsíðna er einn mikilvægasti þáttur í notendaupplifun og getur hreinlega skilið á milli feigs og ófeigs í harðri samkeppni á netinu.

Helstu punktar til að taka með:

  • Netnotendur hafa mjög litla þolinmæði fyrir hægum vefsíðum. Eftir 3 sekúndur í hleðslu aukast líkur á brotthvarfi notenda um 32% og 90% eftir fimm sekúndur
  • Lítill hraði hefur slæm áhrif á sölu, orðspor og vörumerkjaímynd
  • Hægar síður orsakast af þáttum eins og magni og formati myndefnis, tengdum tólum (e. plug-ins) og gæðum kóðans sem vefurinn er skrifaður með
  • Margar leiðir eru færir til að bæta hraða, til dæmis að þjappa betur myndefni, yfirfara kóða og ýmis veftól (e. plug-ins) og nýta betur flýtiminni

Hraðari vefur = meiri viðskipti

Hraði vefsíðu hefur áhrif á notendaupplifun og getur haft úrslitaþýðingu fyrir vefinn þinn. Hraðari síður bjóða betri notendaupplifun sem þýðir minna brotthvarf (e. bounce-rate) og ýtir undir skoðun á fleiri síðum á vefnum.

Um helmingur notenda býst ekki við lengri hleðslutíma en tvær sekúndur. Rannsóknir Google sýna að þegar hleðslutími eykst úr 1 í 3 sekúndur aukast líkur á brotthvarfi um 32% og ef tíminn fer úr 1 í 5 sekúndur aukast líkurnar um 90%.

Það er einfaldlega engin þolinmæði fyrir hægum vefjum. Ef vefsíðan poppar ekki upp eftir örfáar sekúndur eru mjög miklar líkur á að notandinn láti sig hverfa og leiti annað. 

Þetta á sérstaklega við um vefverslanir og óþarfi að útskýra hvaða áhrif það hefur á afkomu þeirra.

Líkur á brotthvarfi eftir hleðslutíma

Líkur á brotthvarfi aukast mikið eftir því sem hleðslutími eykst. Brotthvarfshlutfall og tími á síðu hefur mikil áhrif á leitarvélabestun. Mynd frá Techreport.com.

Betri leitarniðurstöður í Google

Hraði vefsíðna skiptir miklu máli fyrir leitarvélabestun. Google tekur tillit til margra þátta við útreikninga sína, en hraði er mikilvægur þáttur, bæði fyrir leit úr tölvum en ekki síður í símum.

Árið 2015 fóru leitir í síma fram úr leitum í tölvum í fyrsta skiptið. Frá 2017 raðar Google síðum eftir símaútgáfum heimasíða. Fyrir þann tíma var það þveröfugt.

Notendaupplifun í síma, ekki síst hleðsluhraði, hefur nú lykilþýðingu varðandi árangur í leitarvélum. Google raðar síðum neðar sem bjóða lélega upplifun í símum. 

Þú verður að hafa vef sem býður snarpa hleðslu og þægilega upplifun í öllum vöfrum, í öllum tækjum. 

Neikvæð upplifun á vörumerkinu

Önnur ástæða til að hafa vefi hraða, og þar með notendaupplifun sem besta, er að slæm upplifun getur haft mjög neikvæð áhrif á vörumerkjaímynd notenda.

Ef vefurinn virkar ekki sem skyldi gefur það út merki um að starfsemin sé ekki fagleg og ótrúverðug. Hver vill leggja inn kortaupplýsingar sínar hjá slíkum aðila?

Greining á hraða

Til eru ýmis tól til að greina hvað tefur helst hleðslu vefsíðna, til dæmi Google PageSpeed Insights.

Google PageSpeed skoðar nokkra þætti til að reikna út heildareinkunn fyrir hleðslutíma. „Largest Contentful Paint“ eða LCP, mælir til dæmis tímann sem tekur að hlaða inn þyngstu upplýsingarnar á síðuna.

LCP hefur töluverð áhrif á röðun vefsíðna í Google - því lægri LCP tími, því betri niðurstöður í Google.

Hraðamæling á Google PageSpeed fyrir www.ntc.is

Annað þekkt tól til að greina hraða er GTmetrix, en þar geturðu til dæmis borið saman hraðaúttekir á 3 vefjum í einu.

Af hverju er vefurinn hægur?

Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því að vefurinn er hægur, til dæmis staðsetning netþjóns, stærð mynda, hönnun vefsins, tegund vafra og fjöldi endurvísanna (e. redirects). Fleira mætti til telja.

Þetta þýðir hins vegar að þú hefur ýmsa möguleika  til að bæta hraðann á vefnum. Hér verður fjallað um nokkrar leiðir til þess. 

#1: Bættu hýsinguna

Gæði hýsingar og staðsetning getur haft mikil áhrif á hraða. Það eru slæm bítti að velja ódýra hýsingu til að spara mánaðargjöld. Ódýr hýsing þýðir oft að þú ert að deila bandvídd á yfirkeyrðum netþjónum með mörgum öðrum vefjum sem getur hægt á hraða þíns vefs.

#2: Farðu yfir Javascript

JavaScript  er mikið notað til að gera vefi dýnamíska og gagnvirka - og þar með skemmtilegri - en slíkir vefir þurfa meiri tíma til að hlaða og birta. Til að tryggja að síðan hlaðist fljótt upp þarf reglulega að yfirfara Javascript til að fjarlægja hægvirkan kóða og óþarfa gögn.

#3: Stillingar og aðlögun á myndefni

Vandað og gott myndefni er tilvalið til að bæta gæði vefefnis og notendaupplifunar. En það getur verið tvíeggja sverð. Ein helsta ástæða fyrir þungum síðum er myndefni sem hefur ekki verið þjappað nægilega vel.

Stórar myndir í hágæðum geta hægt verulega á hleðslutíma. Snið mynda skiptir einnig máli PNG og GIF myndir eru til dæmis þyngri en JPEG myndir. 

Vefstjórar og aðrir sem bera ábyrgð á vefjum þurfa að passa að að stærð mynda fari ekki yfir 1MB og nota JPEG myndir í stað PNG og GIF.

#4: Fækkaðu framsendingum (e. redirects)

Óþarfa framsendingar (e. redirects) geta líka haft áhrif á hraða. Stundum er nauðsynlegt að senda áfram fyrirspurnir, til dæmis þegar skipt er um lén, en gott að lágmarka slíkar sendingar og taka þær út sem ekki eru nauðsynlegar.

#5: Nýttu skyndiminni (e. cache) til hins ýtrasta

Skyndiminni (e. cache) er notað til að geyma gögn tímabundið sem sparar tíma og eykur afköst/vinnslu vefja verulega. Skyndiminnið er notað til að afgreiða endurteknar beiðnir um sama efni, sem hraðar birtingarferlinu. 

Vafraskyndiminni er notað til að geyma ýmiss konar upplýsingar eins og stílskjöl, myndir og JavaScript skrár svo vafrinn þurfi ekki að sækja þær af netþjóni í hvert skipti sem síðan er heimsótt.

Hleðsluhraði vefsíða hefur mikil áhrif á notendaupplifun

#6: Hreinsaðu kóðann og fjarlægðu ónauðsynleg tól (e. plug-in)

Subbulegur kóði getur líka hægt á vefsíðum. Of miklar eyður, tómar nýjar línur, óþarfa athugasemdir og fleira gerir stílskjal (e. style sheet) vefsins óþarflega stórt. Þróunarteymi geta notað ýmis tól til að hreinsa upp kóða og minnka þar með skráarstærð. 

Einnig ber að varast að nota mörg CSS stílskjöl. Með því fækkar HTTP fyrirspurnum og vefurinn verður hraðari.

#7: Þjappa og þjappa meira

Myndir, CSS og Javascript eru oft nauðsynlegur hluti aðlaðandi vefja. Það er ekki einfalt að sneiða hjá þeim, en þú getur þjappað þessi element með því að nota GZIP þjöppun og hraðað þannig flutningi skráa. GZIP er stöðluð aðferð til að þjappa gögnum saman sem eru send í vafrann.

#8: Nýttu efnisdreifikerfi 

Efnisdreifikerfi (e. content distribution network) er kerfi netþjóna sem er notað til að dreifa álagi við að hlaða inn efni. Í slíkum kerfum eru tekin afrit af vefnum þínum og þau geymd á netþjónum sem eru staðsettir eru á ólíkum stöðum þannig að notendur hafi hraðari og áreiðanlegri aðgang að vefnum þínum.

Efnisdreifikerfi létta mjög álagi við að hlaða inn efni

Samantekt

Hraði vefsíðna er dauðans alvara fyrir fyrirtæki sem byggja afkomu sína á netviðskiptum, ekki síst vefverslanir. Notendur gera einfaldlega kröfu um að síður hlaðist upp á örfáum sekúndum - ef ekki eru þeir farnir annað. Þolinmæði fyrir slöppu viðmóti og hægum vefjum er lítil sem engin. 

Sem betur fer er ýmislegt sem hægt er að gera til að auka hraðann, til dæmis að þjappa betur myndefni, hreinsa upp óhreinan kóða og velja betri hýsingarþjónustu.

 

Hans Júlíus Þórðarson

Elmar Gunnarsson

Viðskipti og ráðgjöf

Viltu kíkja í spjall?

Orð eru til alls fyrst. Kíktu til okkar í heimsókn og segðu okkur þína sögu. Við tökum vel á móti þér, frítt og skuldbindingalaust.

Sláðu á þráðinn

415 0018

Eða skelltu á mig pósti

Fyrirtaks fólk í fyrirtaks fyrirtæki

Vettvangurinn er skipaður einvala liði fólks og furðufugla, sem er gaman og ánægjulegt að vinna með.

  • Framúrskarandi fyrirtæki 2022-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2021-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2023
  • Velgjörðafyrirtækja SOS Barnaþorpa
  • Fyrirtækja ársins 2020

Viðskiptavinur