Til hvers eru prótótýpur? Allt um það hér.

Það er stór en oftast góð ákvörðun að endurnýja vefinn. Tæknin þróast stöðugt og það sem þótti bara fínt fyrir örfáum árum virkar gamalt og þreytt í dag. Vefþróun er hins vegar verkefni sem reynir á samstarf marga hagsmunaaðila sem geta haft ólíkar hugmyndir og væntingar. Það er alltaf ákveðin óvissa og áhætta í spilunum..

Hans Júlíus Þórðarson

Hans Júlíus Þórðarson

Markaðsmál og efnisþjónusta

julli@vettvangur.is

Það er gríðarlega mikilvægt áður en hafist er handa að allir skilji verkefnið á sama hátt og hafi sambærilegar væntingar hvað varðar virkni og útlit nýja vefsins. Til að skýra vel og útlista óskir verkkaupa eru stundum gerðar ítarlegar þarfagreiningar, sem stundum flækja málin frekar en einfalda.

Önnur leið, jafnvel til viðbótar við þarfagreiningu, er að gera prótótýpu eða frumgerð af nýjum vef. 

Lykilpunktar:

  • Þróun og hönnun á nýjum vef er oft flókið og vandasamt verkefni enda margir hagsmunaaðilar sem koma að verkinu - mikilvægt er að stilla saman strengi og móta sameiginlega sýn
  • Gerð prótótýpu er leið til að draga fram hugmyndir, væntingar og möguleika sem í boði eru áður en eiginleg vefþróun hefst
  • Prótótýpur eru mjög skilvirkar fyrir notendaprófanir, en ávinningur af nýjum vef stendur og fellur með virkni fyrir notandann
  • Meðal kosta þess að láta vinna prótótýpu er sparnaður í tíma og peninguminnsýn í vinnubrögð vefstofunnar og lágmörkun á óvissu og áhættu

Hvað er „prótótýpa“?

Fullgerð prótótýpa er vandlega hönnuð frumgerð eða tilraunaútgáfa af lausninni eins og hún gæti litið út í endanlegri útgáfu. Hún lýsir á sjónrænan hátt þeirri virkni sem lausnin býr yfir, flæði hennar og eiginleikum. Prótótýpuvef er hægt að vafra um líkt og um raunverulega lausn væri að ræða.  

Megintilgangur með prótótýpum er að fá fram hugmyndir og ábendingar frá öllum hagsmunaaðilum áður en ákveðið er að halda áfram í eiginlega vefþróun.

Prótótýpan er einnig gagnleg til að prófa hvernig vöruframboði, þjónustu og markaðsefni er best komið á framfæri og hvernig nýr vefur birtist sem áhrifarík framlenging á vörumerki viðskiptavinar í stafrænu umhverfi.

 

Verkefnið tekur oft miklum breytingum á leiðinni - stundum þarf að stroka út

Það er betra að nota strokleður á teikniborðinu en sleggju á byggingasvæðinu (Frank Lloyd Wright, arkitekt).

Notandinn í fyrirrúmi

Vefir þurfa að vera konfekt fyrir augað og snarpir sem engisprettur, en þeir standa og falla með dómi notandans. Ef vefurinn leiðir ekki notandann áfram þangað sem hann vill fara - og/eða þangað sem þú vilt að hann fari - hefur verkefnið mistekist.

Úttekt á notendaviðmóti er því mikilvægur liður í vinnu við prótótýpu. Yfirleitt eru teknir nokkrir snúningar saman með viðskiptavini til að tryggja að allt sé eins og það á að vera og báðir aðilar vissir um að óhætt sé að halda áfram í næsta fasa.

Því miður er það algeng saga að verkkaupar koma nokkrum mánuðum eftir útgáfu hans til vefstofu sinnar og segjast ósáttir með virkni vefsins, að hann geri einfaldlega ekki það sem vænst var til. Oft er ástæðan sú að ýmsar fyrirframgefnar hugmyndir voru á sveimi en aldrei ræddar eða prófaðar.

Það getur verið dýrkeypt.

Hvernig er prótótýpa búin til skref fyrir skref?

Vefstofur hafa ýmsan hátt á hvernig þær skipuleggja vinnu við prótótýpur en við hjá Vettvangi gerum þetta yfirleitt svona, þótt afbrigði þekkist, eftir eðli verkefna:

Kick-off vinnustofa

Fyrsta skrefið er að setjast saman í smá vinnustofu. Þar er rætt vítt og breitt um verkefnið; við kynnum okkur og hvernig við kjósum að vinna. Viðskiptavinurinn lýsir sinni sýn og væntingum til verkefnisins.

Við bregðum okkur í hugarflugsæfingu þar sem við veltum upp ýmsum möguleikum. Okkur finnst mikilvægt að skoða sem flesta möguleika með opnum hug og beitum ýmsum nálgunum, til dæmis “Blue Sky Thinking”, til að laða fram allar hugmyndir, hversu fráleitar sem þær kunna að vera. Því glannalegri, því betri.

Næstu skref eru svo ákveðin og spurningum svarað með fyrstu drögum.

Við leggjum saman spilin á borðið - ekkert er heilagt

Fyrstu drög

Viðmótshönnuður útfærir fyrstu drög að prótótýpu og notar til þess gögn og upplýsingar sem komið hafa fram í fyrri skrefum og fundum með viðskiptavini. Í framhaldi af því eru haldnir fundir til að ræða og rýna í uppkastið og þróa áfram. 

Prótótýpan er svo uppfærð jafnharðan, byggt á endurgjöf og niðurstöðum úr rýnifundunum. Við höldum áfram að vera óhrædd við að prófa nýjar útfærslur í viðmóti en sjónarmið notandans er alltaf í fyrsta sæti. Lausnin á að létta líf hans. 

Prófanir, endurgjöf og lokaítrun

Þegar aðilar eru orðnir sáttir við prótótýpuna þá viljum við ganga úr skugga um að hún falli í kramið hjá notendum vefsins. Lausnin er því prófuð á skilgreindum hópi notenda og/eða hagsmunaðilum tengdum verkefninu, allt eftir óskum, þörfum og eðli verkefnisins.

Í framhaldi af því er unnið úr niðurstöðum prófana og farið yfir þá þætti sem þarf að laga.

Niðurstöður og verkáætlun kynnt

Þegar komin er skýr, sameiginleg sýn á verkefnið eru komnar forsendur til þess að skilgreina og sundurliða verkefnið í einingar til að kortleggja hvernig komist verði á leiðarenda. Lagðar eru fram tillögur að verkáætlun sem sundurliðar alla verkþætti, verktíma, og verklag ásamt öðrum mikilvægum upplýsingum.

Skýr ávinningur

Sameiginlegur skilningur

Vinna sem þessi hjálpar öllum hagsmunaaðilum sem koma að þróunar lausnarinnar með beinum eða óbeinum hætti að öðlast sameiginlegan skilning á því verkefni sem framundan er.

Það er mikilvægt að skilgreina vel hvað fellur þar undir og hvað ekki, og fá alla að sama borði. 

Vel gerð prótótýpa getur líka hjálpað gagnvart hikandi hagsmunaaðilum og eytt áhyggjum af því að útkoman muni valda vonbrigðum. Það er til dæmis nokkuð algengt að þeir sem fara fyrir tilteknum deildum innan fyrirtækja óttist að fá ekki sitt pláss og sýnileika á nýjum vef.

Myndræn útskýring er áhrifaríkust

Reynslan hefur sýnt að langar og ítarlegar þarfagreiningar upp á margar blaðsíður geta valdið misskilningi og töfum, en prótótýpa þar sem meginlínur í hönnun og virkni liggja fyrir er miklu auðveldara að vinna eftir og þróa áfram. 

Myndræn framsetning er miklu áhrifaríkari til að draga fram vilja og óskir þínar, sem og fyrir okkur til að sýna þeim fram á hvaða leiðir er hægt að fara.

Sparar tíma og peninga

Prótótýpa hjálpar þróunarteymum að skilgreina lausnina, brjóta hana niður og kortleggja hvernig þau komast á áfangastað - sem gerir verk- og kostnaðaráætlun nákvæmari. Sem fyrr segir getur verið kostnaðarsamt að gera stórfelldar breytingar eftir að vefurinn hefur verið gefinn út.

Innsýn í vinnubrögð stofunnar

Vinnusprettur vefstofu við prótótýpu gefur viðskiptavini innsýn í hvernig stofan vinnur, gæði vinnubragða, tæknigetu og hvernig samskiptin muni verða þegar verkið hefst fyrir alvöru.

Traustur grunnur fyrir næstu ákvarðanir

Prótótýpan skýrir ekki einungis framtíðarsýnina í glæsilegu viðmóti heldur byggir hún grunn undir allar ákvarðanir sem framundan eru og hjálpar við að bera kennsl á hindranir sem geta orðið á vegferðinni.

Lokaorð

Það er okkar sannfæring og reynsla hjá Vettvangi að gerð prótótýpu af vef lágmarki alltaf misskilning og kostnað, og flýti fyrir því að vefurinn klárist á réttum tíma - eins allir vildu hafa hann. Prótótýpuvinna stillir saman strengi allra hagsmunaðila og mótar sameiginlega sýn á nýja, draumavefinn.

Elmar Gunnarsson

Viðskipti og ráðgjöf

Viltu kíkja í spjall?

Orð eru til alls fyrst. Kíktu til okkar í heimsókn og segðu okkur þína sögu. Við tökum vel á móti þér, frítt og skuldbindingalaust.

Sláðu á þráðinn

415 0018

Eða skelltu á mig pósti

Fyrirtaks fólk í fyrirtaks fyrirtæki

Vettvangurinn er skipaður einvala liði fólks og furðufugla, sem er gaman og ánægjulegt að vinna með.

  • Framúrskarandi fyrirtæki 2022-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2021-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2023
  • Velgjörðafyrirtækja SOS Barnaþorpa
  • Fyrirtækja ársins 2020

Viðskiptavinur