Stafræni leiðtoginn: Rakel Guðmundsdóttir

Undanfarin misseri hefur Atlantsolía unnið af kappi þróun á stafrænni þjónustu sinni í samstarfi við Vettvang og Apparatus. Rakel Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Atlantsolíu, og teymi hennar hefur staðið í ströngu og hefur frá mörgu að segja. Við tókum hana tali.

Hans Júlíus Þórðarson

Hans Júlíus Þórðarson

Markaðsmál og efnisþjónusta

julli@vettvangur.is

Nafn               Rakel Guðmundsdóttir

Starf               Markaðsstjóri AO

Atlantsolía hefur ekki farið varhluta af stafrænu byltingunni og stórauknum kröfum neytenda um fyrsta flokks stafræna þjónustu. Undanfarin misseri hefur Atlantsolía unnið af kappi að þróun á sinni stafrænu þjónustu í samstarfi við Vettvang og Apparatus.

Fyrr á árinu kom út nýtt app Atlantsolíu í samstarfi við Apparatus sem ætlað er að leysa af hólmi plastdælulykla og bæta þjónustu verulega. Vettvangur smíðaði svo nýja vefi fyrir bæði Atlantsolíu og Atlantsorku, sem er nýtt vörumerki.

Rakel Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Atlantsolíu, og teymi hennar hefur staðið í ströngu og hefur frá mörgu að segja. Við tókum hana tali.

Mikil vinna fyrir lítið teymi

Hvert er þitt hlutverk í stafrænni umbreytingu AO?

„Ég starfa sem markaðsstjóri Atlantsolíu þar sem ég stýri markaðsmálum fyrir bæði vörumerki okkar, Atlantsolíu og Atlantsorku.

Við erum ekki nema 11 manns á skrifstofunni, þannig að við verðum að bera ýmsa hatta og vinna vel saman. Við erum til dæmis ekki með vefstjóra eða annað sérhæft markaðsfólk, þannig að allt sem viðkemur markaðsmálum og þjónustu er á mínu borði.

Ég ber ábyrgð á ýmsum lausnum og verkefnum sem snúa að þjónustuupplifun viðskiptavina, þannig að stafræn umbreyting okkar undanfarin ár hefur komið mikið á mitt borð. Þannig að ég hef verið með yfirsýn og verkefnastýrt breytingum undanfarið - sem hafa verið miklar.

En þessi vegferð hefur annars verið náin og þétt teymisvinna okkar Guðrúnar Rögnu, forstjóra, og Alberts Vals, tæknistjóra okkar. Aðrir starfsmenn hafa líka komið að vinnunni.“

Brautryðjendur á eldsneytismarkaði

Hvað ýtti ykkur af stað í þessa vegferð?

„Við fórum í stefnumótun 2023 þar sem við skerptum á okkar áherslum og settum kúrsinn á stafræna umbreytingu sem stuðning við heildarstefnu okkar. Það var skýr niðurstaða að stíga ákveðið og markvisst inn í þessa vegferð.

Það má segja að hvatinn að því að appvæða dælulykilinn sé þrenns konar: Í fyrsta lagi að koma til móts við viðskiptavini okkar með mun betri þjónustuupplifun, í öðru lagi að hagræða í rekstri, minnka snúninga og handavinnu í sambandi við dælulyklana, og í þriðja lagi að styðja við umhverfissjónarmið, minnka sóun og plast í umferð.

Við störfum á mjög virkum samkeppnismarkaði og því er mikilvægt að hlusta á þarfir viðskiptavina okkar og fylgjast með nýjungum í tækni og þróun. Við erum einmitt brautryðjendur um margt á okkar markaði og því samhengi má nefna að við vorum fyrst olíufélaga til að bjóða dælulykla, sem þótti stór bylting í greiðslulausn á sínum tíma.

Í framhaldi af þessari stefnumótun fórum við í ítarlega greiningu og skoðuðum hvaða lausnir myndu henta best. Framan af vildum við til dæmis kanna hvernig við gætum nýtt „veski“ í símum, en komumst að þeirri niðurstöðu að applausn myndi henta betur okkar markmiðum og þróunarmöguleikum.

Þar geta viðskiptavinir okkar haft allt á einum stað sem viðkemur afgreiðslu eldsneytis og viðskiptum við okkur.

Við vorum að auki meðvituð um að uppfærsla á vefnum okkar væri vel tímabær og þvi var ákveðið að vinna þessi stóru verkefni samhliða sem heildstæða umbreytingu á stafrænum lausnum.“

Stefnan þarf að vera lifandi

„Stefna okkar hvað varðar stafrænar lausnir þarf að vera lifandi og í reglulegri skoðun. Við verðum að hlusta eftir markaðnum, hvernig þarfirnar breytast og samkeppnin hreyfir sig.

Það er svo margt hægt að gera, en við gerum ekki allt í einu - við verðum að forgangsraða og setja fremst það sem skilar mestum ávinningi á sem stystum tíma, fyrir okkur og viðskiptavinina. Það er munur á „nice-to-have“ og „need-to-have“.

Við höfum annars kannað dálítið hvernig staðan er á eldsneytismörkuðum erlendis hvað varðar tækniþróun, til að fá hugmyndir og innblástur, og okkur sýnist Íslendingar standa mjög framarlega.

Íslendingar eru auðvitað mjög nettengdir og tæknivæddir, og við erum stöðugt með símana á lofti í öllu sem við gerum. Krafan í dag er einfaldlega að þú getir sinnt öllum þínum erindum í símanum.“

Áskorun að láta kerfin tala saman

Voru einhverjar óvæntar hindranir sem komu upp í vinnu ykkar?

„Það voru ekki beinlínis erfiðar hindranir eða óvæntar uppákomur, en þetta var vissulega mikil vinna, ekki síst hvað varðar tengingar milli kerfa sem þurfa að vinna saman sem smurð vél.

Við erum náttúrlega að vinna með viðkvæmar upplýsingar sem þurfa að skila sér nákvæmlega milli kerfa, allt þarf að ganga hnökralaust fyrir sig.

Í fyrra innleiddum við nýtt bókhaldskerfi sem var meiriháttar mál. Allar svona nýjungar eru snúnar og reyna á mannskapinn, sérstaklega þegar starfsmenn eru fáir eins og er hjá okkur.

Þær tæknilausnir sem eru á vinnslustigi núna snúa helst að þróun innanhússkerfa.“

Frábærar viðtökur við appinu

Hverjar hafa svo viðtökur viðskiptavina verið við appinu?

„Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá viðskiptavinum og erum sjálf í skýjunum með appið, finnst það vera frábærlega hannað og notendavænt.

Reyndar fórum við í frekar varkára kynningu á þessu, leyfðum appinu að fá „organíska“ dreifingu í sumar. Áður en appið var gefið út fengum við vini og ættingja til að prófa og koma með ábendingar.

Við höfum sett okkur ákveðin tímasett markmið varðandi notkun á appinu og stefnum að því að meirihluti okkar viðskiptavina verði þarna með viðskipti sín fyrr en síðar.

Áskorunin snýst um að fá fólk til að hlaða niður appinu og svo að nota það í viðskiptum við okkur.

Núna erum við með í gangi herferðir til að kynna appið þar sem við leggjum áherslu á þægindin við notkun þess, og finnum að þær eru að virka.

Eftir útgáfu höfum við fengið marga punkta frá viðskiptavinum, í gegnum appið og aðra miðla, sem eru mjög dýrmætir. Það er mjög mikilvægt að hlusta vel á endurgjöf notenda þegar ný lausn er gefin út til að nýta í næstu uppfærslur.

Það er reyndar þegar komin út ein uppfærsla og önnur á leiðinni.“

Ýmsar lexíur á leiðinni

Voru einhverjar lexíur í ferlinu sem gætu nýst öðrum sem velta fyrir sér álíka verkefni?

„Þar sem við erum fáliðuð, og erum ekki með UT deild, hefði verið sterkt að fá verkefnastjóra utan frá sem þekkir til svona vinnu. Hann hefði getað hjálpað okkur að skilja kjarnann frá hisminu og ramma verkefnið betur í tíma og fjármagni.

Hins vegar nutum við góðs af fyrri vinnu með Vettvangi, sem hafði unnið vef fyrir okkur áður. Þannig að þar og hjá Apparatus var fyrir góður skilningur á okkar markaði og þörfum, sem hjálpaði mikið.

Við áttum líka mjög góða hugarflugsfundi með þeim þar sem við fórum rækilega yfir öll markmið, hugmyndir og álitamál.

Yfir allt ferlið héldum við svo reglulega fundi til að taka stöðuna. Það mikilvægt að fara ekki framúr sér, ætla sér um of. Stundum þarf að taka eitt skref aftur á bak til að fá réttan fókus.

Annað atriði sem kemur upp í hugann er hversu mikilvægt það er að teymið vinni þétt saman, að allir gangi í takt að sama markmiði. Þetta er snúnara og lengra ferli heldur maður gæti haldið og getur tekið á.“

"Þessi vegferð - sem reyndi mjög á okkur - hefur verið mjög lærdómsrík en ávinningurinn sem betur fer í samræmi við það. Við erum í skýjunum með nýja appið, og sömuleiðis nýja vefi fyrir Atlantsolíu og Atlantsorku. Þetta eru frábærar lausnir.“

Framtíðarmúsik

Hvernig sérðu stafræna þjónustu AO þróast í næstu framtíð?

„Við munum auðvitað halda áfram að þróa appið okkar, sem verður lykiltæki í þjónustu okkar. Sem stendur erum við að fókusa á fyrirtækjaviðskiptin. Ný vara hjá okkur er til dæmis deiling á lykli úr appinu með öðrum, sem við erum að útfæra fyrir fyrirtækin.

Svo erum við að fara að setja upp hraðhleðslustöðvar á nokkrum stöðum á landinu, og munum nýta appið í það líka.

Þessi markaður er á fleygiferð og við höfum ekki efni á öðru en vera á tánum í stafrænni þjónustu.“

Elmar Gunnarsson

Viðskipti og ráðgjöf

Viltu kíkja í spjall?

Orð eru til alls fyrst. Kíktu til okkar í heimsókn og segðu okkur þína sögu. Við tökum vel á móti þér, frítt og skuldbindingalaust.

Sláðu á þráðinn

415 0018

Eða skelltu á mig pósti

Fyrirtaks fólk í fyrirtaks fyrirtæki

Vettvangurinn er skipaður einvala liði fólks og furðufugla, sem er gaman og ánægjulegt að vinna með.

  • Framúrskarandi fyrirtæki 2022-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2021-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2023
  • Velgjörðafyrirtækja SOS Barnaþorpa
  • Fyrirtækja ársins 2020

Viðskiptavinur