Vettvangur í 10 ár

Vettvangur er 10 ára. Mikið hefur á daga okkar drifið þennan áratug sem hefur heldur betur verið viðburðaríkur, fullur af miklum áskorunum, lærdómi og sigrum. Við erum svo sannarlega í skýjunum með áfangann. Þessi grein, þar sem við stiklum á stóru í sögu okkar, er ein afmælisskálin til okkar sjálfra.

Hans Júlíus Þórðarson

Hans Júlíus Þórðarson

Markaðsmál og efnisþjónusta

julli@vettvangur.is

Fyrstu árin

Vettvangur hóf starfsemi vorið 2013, en sagan hefst í raun mörgum árum fyrr þegar Garðar og Elmar kynnast hjá Jack & Jones / Selected þar sem þeir unnu saman í nokkur ár og mikil vinátta skapaðist.

Svo liðu árin og leiðir þeirra lágu í sundur um tíma en sambandið var tekið upp aftur þegar Elmar rak auglýsingastofuna Hype (nú Aldeilis) ásamt félaga sínum og Garðar vann sem forritari hjá Advania.

Á borð Hype kom verkefni sem var númeri of stórt fyrir stofuna - að hanna og smíða nýjan vef fyrir fyrir lýðheilsuátakið „Heilsuhegðun“, á vegum Landlæknisembættisins.

Þessi vefur var forveri Heilsuveru, sem allir landsmenn þekkja í dag.

Þá kom upp kjörið tækifæri að rifja upp gamla vináttu. Elmar fékk Garðar til liðs við sig til að forrita vefinn og varð verkefni þetta sprotinn að nýju fyrirtæki, sem fékk nafnið Vettvangur.

Vettvangur hafði fyrst um sinn aðstöðu á Köllunarklettsvegi ásamt Hype þar sem fyrstu verkefni Vettvangs urðu til eins og Heilsuhegðun, Hagstofan, 66Norður, Michelsen, ÍAV og fleiri góð verkefni.

Margar góðar minningar eru þaðan af fjörugum lotum við ping pong borðið góða, lyktinni frá prentsmiðjunni á neðri hæðinni að ógleymdu mötuneytinu sem þeir fengu aðgang að í húsinu.

Vettvangur fyrir stemningu

Það er metnaðarmál á Vettvangi að nýta hvert tækifæri til að lyfta andanum. Og stundum glösum.

Tæknin mótaði stefnuna

Árið 2013 var tíðarandinn mjög frábrugðinn því sem við þekkjum í dag en þá voru flest fyrirtæki að vinna með íslenskan, lokaðan hugbúnað. Lítið var hugsað um framþróun í verkefnum heldur var öllum kerfum skipt út á fjögurra ára fresti með tilheyrandi kostnaði. Lítið traust var til staðar.

Með þekkingu og margra ára reynslu af störfum innan hugbúnaðargeirans á Íslandi að vopni, voru grundvallarstarfshættir Vettvangs mótaðir.

Áherslan skyldi vera á persónulega þjónustu, opinn hugbúnað og engin leyfisgjöld. Einnig yrðu skipulögð teymi sem væru í beinum samskiptum við viðskiptavini í stað verkefnastjóra, til að tryggja viðbragðsflýti, einfalt skipulag og gæði. 

Tæknistakkur valinn

Eitt fyrsta og mikilvægasta verkefni Vettvangs var að velja tæknistakk og kerfi til að smíða lausnir sínar með. Garðar var sannfærður um að .NET tækni Microsoft væri besti kostur vegna áreiðanleika, tengimöguleika og stuðnings Microsoft við áframhaldandi þróun.

Umbraco vefumsjónarkerfið sem þróað var í Danmörku varð fyrir valinu, en það byggir á .NET tækni Microsoft. Umbraco er auk þess ókeypis og opinn hugbúnaður sem veitir frelsi og auðveldar tengingar og sérsmíði, bæði fyrir Vettvang og viðskiptavini.

Val á .NET opnu vefumsjónarkerfi á þessum árum fyrir stór verkefni á íslandi var mjög nýstárleg nálgun en sú ákvörðun reyndist Vettvangi vel og mótaði grunninn að tæknilegri sérstöðu stofunnar.

Það má reyndar að segja að öfugt við margar aðrar vefstofur, sem byggja frekar á hönnun sem útgangspunkt, liggi grunnur Vettvangs í tæknigetu og forritunarþekkingu.

Fyrstu verkefni Vettvangs voru til marks um þetta, en þar sinnti Vettvangur forritunarvinnu en réði hönnuði eða var í samstarfi við aðrar stofur um hönnunarhluta verkefnisins.

Umbraco er fyrsta val á Vettvangi

Snemma var sú stefna mörkuð að velja opna vefumsjónarkerfið Umbraco til að auðvelda alla framtíðarþróun. Hér heldur Garðar kynningu á verkefnum Vettvangs á ráðstefnu Umbraco í Óðinsvéum.

Fyrstu verkefnin

Helsta áskorun ungra fyrirtækja snýr að því að ná inn fyrstu kúnnunum.  Sá tími tók vissulega á hjá þeim félögum, þar sem þurfti að sækja fyrstu verkefnin með harðfylgi, sannfæringu og vinnusemi.

Þegar þú ert lítill og þarft að sanna þig er ekki í boði annað en gefa 200% í verkefnið. Í raun settum við margfalt meira í þessi fyrstu verkefni heldur en samið var um. Við þurftum að taka inn reynslu og sanna okkur, og skila þessum fyrstu verkefnum frá okkur eins óaðfinnanlega og mögulegt var.

Elmar Gunnarsson

Framkvæmdastjóri

Fyrstu viðskiptavinirnir voru þó engir smáseiði. Þar á meðal voru stórir vefir fyrir ASÍ, Hagstofuna og ÍAV. Um sama leyti fengu Vettvangsmenn tækifæri til að forrita nýjan vef fyrir 66°Norður í samstarfi við form5 (nú Kolibri) og auglýsingastofuna Jónsson & LeMack.

Vefurinn heppnaðist frábærlega og hlaut bæði Íslensku vefverðlaunin sem og alþjóðleg verðlaun Umbraco fyrir bestu hönnun 2014, í harðri samkeppni við það sem best gerist í heiminum.

Vefur 66°Norður var ekki bara glæsilega hannaður, heldur mjög tæknilega fullkominn, þar sem meðal annars var sett upp „open-source“ verslunarkerfi í Umbraco sem Vettvangur hefur þróað áfram og innleitt fyrir fjölmarga viðskiptavini.

Uppbygging og áskoranir

Þrátt fyrir góða byrjun voru fyrstu árin enginn eintómur dans á rósum. Unga fyrirtækið var viðkvæmt fyrir sveiflum í tekjum með fáa viðskiptavini.

Það var ekkert annað í boði en leggjast á árarnar, hagræða eins og mögulegt var og sækja fleiri viðskipti af krafti.

Á þessum fyrstu árum fann Vettvangur sér samstað í Bankastrætinu. Þá þegar fóru að berast stærri verkefni og fleiri starfsmenn bættust í hópinn.

Þar komu inn ungir forritarar og fyrsti hönnuður Vettvangs, Arnór Bogason, sem á meðal annars heiðurinn af logói Vettvangs.

Vettvangur stækkar

Um svipað leyti og Vettvangur flutti á Bankastrætið fóru að berast stærri verkefni og nokkrir fyrstu starfsmennirnir voru ráðnir.

Í kjölfar velgengni 66°Norður fóru stærri verkefni að berast á land. Eitt þeirra var nýr vefur fyrir Sjóvá, en hann var unninn í samstarfi við Kosmos & Kaos og Jónsson & LeMack, sem sáu um hönnunarþátt verkefnisins. Vefurinn fékk tvenn verðlaun hjá SVEF 2017 sem fyrirtækjavefur ársins og sem val fólksins.

Vettvangur var búinn að stimpla sig rækilega á kortið.

Sjóvá var einn af þeim stóru

Vefur Sjóvá sem unninn var í samstarfi Vettvangs, Kosmos & Kaos og Jónsson & LeMack vann tvenn verðlaun hjá SVEF 2017.

Vöxtur og velgengi

Næstu ár einkenndust af stöðugum vexti þar sem viðskiptavinum jafnt sem starfsmönnum fjölgaði. Nýr staður var fundinn á Suðurlandsbraut 4a og síðar í enn stærra húsnæði á Suðurlandsbraut 6.

Meðal stórra verkefna sem komu á borð Vettvangs á þessum tíma má nefna Domino's, Innnes, Epli, Marel og Heilsuveru, svo fáein séu nefnd.

Vefur Innnes var lærdómsríkt verkefni þar sem reyndi á fleiri samþættingar við innri kerfi en áður.

Vettvangur innleiddi þar einnig þróaðri útgáfu af verslunarlausn sinni, Ekom, sem hafði verið smíðað í Umbraco kerfið og hentar fullkomlega fyrir íslenskar B2B lausnir.

Domino's vefurinn var mikill fengur fyrir Vettvang og hefur samstarf fyrirtækjanna gengið framar vonum.

Vefur Domino's er margverðlaunaður hjá SVEF í ýmsum flokkum, enda hefur stafræn þjónusta Domino's í gegnum vef og app skipt sköpum í velgengi fyrirtækisins undanfarin ár, sem er slík að eftir er tekið á heimsvísu.

Domino’s byggir allt á stafrænum lausnum

Samstarf Vettvangs og Domino’s hefur verið gjöfult á báða bóga. Veflausn Domino´s hefur margsinnis fengið verðlaun SVEF í ýmsum flokkum og stafræn umbreyting fyrirtækisins hefur skilað Domino’s gríðarlegri hagræðingu.

Samstarf með Mín líðan var mjög áhugavert en fyrirtækið er frumkvöðull í rafrænni heilbrigðisþjónustu og var vefurinn hinn fyrsti á Íslandi til að fá leyfi til að veita rafræna heilbrigðisþjónustu. Verkefnið útheimti nána samvinnu við heilbrigðisyfirvöld enda er verið að vinna með heilsu fólks og viðkvæmar persónuupplýsingar.

Mín líðan - verðlaunavefur

Verkefnið með Mín líðan var lærdómsríkt enda um mikið frumkvöðlastarf að ræða í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Vefurinn vann til verðlauna SVEF 2018 fyrir Vefkerfi ársins.

Covid - tími til að ná áttum

Covid árið 2020 var eftirminnilegt á Vettvangi, eins og annars staðar. Mikil óvissa ríkti í viðskiptalífinu og margir héldu að sér höndum. Þá kom sér vel að hafa öfluga viðskiptavini sem lögðu áherslu á stöðuga, áframhaldandi þróun sinna lausna.

Ýmsar ólíkar lausnir litu þó dagsins ljós á þessum tíma, til dæmis stórir vefir fyrir Eimskip og VR.

Vettvangur kom einnig að smíði nýs apps fyrir Lyfju í samstarfi við Stokk. Tæknigrunnur appsins var flókinn og fól meðal annars í sér tengingar við lyfjagrunn Landlæknis, uppsetningu á rafrænum auðkennum og ýmis konar gagnaauðgun. Appið fékk tilnefningu til Íslensku vefverðlaunanna 2021 fyrir fyrir besta appið. 

En covid-tíminn einkenndist líka af fjölmörgum áhugaverðum verkefnum. SOS Barnaþorpin, Rauði krossinn og Hlaup.is eru góð dæmi um slík verkefni.

SOS Barnaþorpin hafa sterkan stuðning af Vettvangi

Vettvangur smíðaði vef fyrir SOS Barnaþorpin en taugin til samtakanna er sterkari en svo, því Vettvangur er eitt nokkurra íslenskra Velgjörðafyrirtækja SOS Barnaþorpanna.

Staðan í dag

Vettvangur hefur stækkað og dafnað á 10 árum.  Starfsmönnum hefur fjölgað í takt við fleiri verkefni, eru nú um 25 manns, þegar systurfyrirtæki eru tekin með.

Fjöldi útgefinna veflausna af ýmsum stærðum skiptir hundruðum og veltuaukning hefur verið stöðugt vaxandi síðustu ár.

En Vettvangur hefur líka gefið af sér nýja sprota. Á grunni Azure innleiðingar í tengslum við hýsingu veflausna fyrir fjölmarga viðskiptavini var stofnað sérstakt félag og vörumerki, Well Advised.

Þjónustu Well Advised hefur verið tekið fagnandi á íslenskum markaði, en einnig hafa erlend tæknifyrirtæki sótt í sérþekkingu fyrirtækisins.

Apparatus, nýtt fyrirtæki um þróun applausna var stofnað sumarið 2023. Nýja afkvæmið fékk einnig aðstöðu á Suðurlandsbraut 6 - á hæðinni fyrir ofan Vettvang. Apparatus fer feykivel af stað með spennandi applausnir fyrir Lyfju, Domino's og Atlantsolíu.

Apparatus tekur á loft

Apparatus tekur hratt flugið með spennandi verkefnum. Fyrir skemmstu var undirritaður samningur um áframhaldandi þróun Domino's appsins. Á mynd eru sérfræðingar Apparatus ásamt Agli Þorsteinssyni, yfirmanni stafrænna lausna hjá Domino's.

Árangur og viðurkenningar

Uppskeran hefur verið frábær. Góður rekstur hefur til dæmis ekki farið fram hjá aðilum eins CreditInfo og Keldunni, sem hafa veitt Vettvangi viðurkenningar sínar fyrir framúrskarandi rekstrarárangur.

Vettvangur hefur líka fengið útnefningar VR sem Fyrirmyndarfyrirtæki ársins fimm ár í röð, allt frá árinu 2019, og Fyrirtæki ársins 2020.

Vettvangur á líka gott safn af tilnefningum og verðlaunum frá SVEF; níu sinnum hafa vefir Vettvangs fengið Íslensku vefverðlaunin, tilnefningar ná tveimur tugum.

Umbraco hefur einnig tvívegis veitt Vettvangi alþjóðleg verðlaun, fyrir 66°Norður og Heilsuveru, þar sem keppt var við það sem best gerist í heiminum.

Fyrirtæki ársins 2020

Vettvangur var útnefnt Fyrirtæki ársins hjá VR 2020. Garðar tekur hér stoltur við viðurkenningu frá Ragnari Ingólfssyni, formanni VR.

Dýrmætar lexíur

Fyrstu 10 ár í sögu Vettvangs hafa sannarlega verið lærdómsrík. Vettvangur dagsins í dag er allt annar hvað varðar tæknigetu, hönnun, og þjónustuframboð.

Hvernig myndum við ráðleggja þeim sem eru að byrja rekstur í okkar geira?

Velja réttu tæknina

Tæknin breytist hratt og því mikilvægt að festast ekki í umhverfi sem getur orðið úrelt eftir nokkur ár. Þær lausnir sem valdar eru hverju sinni þurfa að hæfa verkefninu og hafa mikla möguleika til að þróast og tengjast öðrum lausnum. Opinn hugbúnaður er lykilatriði í þessu sambandi.

Viðbragðsflýtir og sveigjanleiki

Í umhverfi hraðra breytinga, þar sem stöðugar nýjungar koma fram í tækni og stafrænu þjónustuframboði er mikilvægt að hafa agile hugsun, vera stöðugt vakandi fyrir breytingum á markaði og tæknimöguleikum. 

Skilja hið „raunverulega“ verkefni

Það er ekki nóg að taka bara við verkefni og smíða lausn eins og beðið er um, heldur er mikilvægt að skilja aðstæður viðskiptavinarins, hvaða áskoranir hann stendur frammi fyrir í stóra samhenginu. Flestir eru á einhvers konar stafrænni vegferð sem hefur hagræðingu að meginmarkmiði. Það getur þýtt stuðning á fleiri sviðum, sem getur kallað á annars konar nálgun en fyrst var lagt upp með, jafnvel samstarf fleiri aðila.

Lausnamiðað viðhorf

Það er mikilvægt að viðskiptavinurinn finni að þú skiljir vandann vel sem á að leysa - en líka að þótt þú hafir ekki öll svörin munir þú gera allt til að finna þau og leysa það sem þarf að leysa. „Can-do“ viðhorf Vettvangs hefur gagnast mjög vel í gegnum árin. 

Fjölskylduvænt starfsumhverfi

Það er góð stemning á Vettvangi. Til að laða að ungt og hæfileikaríkt fólk er mikilvægt að bjóða sveigjanleika og fjölskylduvænt umhverfi. Menningin skiptir miklu máli; að það sé létt og opið andrúmsloft sem hvetur til lærdóms og refsar ekki fyrir það sem hefði mátt betur fara.

Síðustu 10 ár hafa verið gríðarlega lærdómsrík fyrir okkur, bæði fyrir okkur faglega sem einstaklingar, og líka fyrir Vettvang. En það sem hefur gert Vettvang að því sem hann er í dag er það frábæra starfsfólk sem við höfum náð að fá til okkar yfir árin. Ég er ótrúlega þakklátur fyrir alla þá snillinga sem vinna með okkur í dag og hafa unnið með okkur í gegnum árin.

Garðar Þorsteinsson

Tæknistjóri

Lokaorð - framtíðin

Vettvangur er 10 ára en vegferðin er rétt að hefjast. Við munum áfram fagna metnaðarfullum áskorunum sem taka á og þróa bæði okkur og viðskiptavini okkar áfram.

En ekkert af því verður að veruleika án okkar framúrskarandi starfsmanna sem hafa gert Vettvang að því sem hann er í dag. Við erum ekkert án þeirra.

Um leið viljum við byggja áfram á því sem kjarnar Vettvang: Náin samvinna við viðskiptavini, menning sem einkennist af drifkrafti og metnaði, og stöðug viðleitni til að gera betur í dag en í gær.

Hvernig verður Vettvangur eftir önnur 10 ár? Ef þú hefði spurt mig fyrir fimm árum hvar við værum 2023 hefði ég sagt tóma vitleysu. Við viljum auðvitað stækka og þróast áfram, en það gerum við með því að halda í kúltúrinn og vinnulagið sem hefur fleytt okkur hingað. Aðalatriðið er að við séum agile og með augun á markaðnum og tækninni. Hlutirnir gerast hratt í þessum geira.

Elmar Gunnarsson

Framkvæmdastjóri

Elmar Gunnarsson

Viðskipti og ráðgjöf

Viltu kíkja í spjall?

Orð eru til alls fyrst. Kíktu til okkar í heimsókn og segðu okkur þína sögu. Við tökum vel á móti þér, frítt og skuldbindingalaust.

Sláðu á þráðinn

415 0018

Eða skelltu á mig pósti

Fyrirtaks fólk í fyrirtaks fyrirtæki

Vettvangurinn er skipaður einvala liði fólks og furðufugla, sem er gaman og ánægjulegt að vinna með.

  • Framúrskarandi fyrirtæki 2022-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2021-2023
  • Fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2023
  • Velgjörðafyrirtækja SOS Barnaþorpa
  • Fyrirtækja ársins 2020

Viðskiptavinur