Fyrstu árin
Vettvangur hóf starfsemi vorið 2013, en sagan hefst í raun mörgum árum fyrr þegar Garðar og Elmar kynnast hjá Jack & Jones / Selected þar sem þeir unnu saman í nokkur ár og mikil vinátta skapaðist.
Svo liðu árin og leiðir þeirra lágu í sundur um tíma en sambandið var tekið upp aftur þegar Elmar rak auglýsingastofuna Hype (nú Aldeilis) ásamt félaga sínum og Garðar vann sem forritari hjá Advania.
Á borð Hype kom verkefni sem var númeri of stórt fyrir stofuna - að hanna og smíða nýjan vef fyrir fyrir lýðheilsuátakið „Heilsuhegðun“, á vegum Landlæknisembættisins.
Þessi vefur var forveri Heilsuveru, sem allir landsmenn þekkja í dag.
Þá kom upp kjörið tækifæri að rifja upp gamla vináttu. Elmar fékk Garðar til liðs við sig til að forrita vefinn og varð verkefni þetta sprotinn að nýju fyrirtæki, sem fékk nafnið Vettvangur.
Vettvangur hafði fyrst um sinn aðstöðu á Köllunarklettsvegi ásamt Hype þar sem fyrstu verkefni Vettvangs urðu til eins og Heilsuhegðun, Hagstofan, 66Norður, Michelsen, ÍAV og fleiri góð verkefni.
Margar góðar minningar eru þaðan af fjörugum lotum við ping pong borðið góða, lyktinni frá prentsmiðjunni á neðri hæðinni að ógleymdu mötuneytinu sem þeir fengu aðgang að í húsinu.